Eimskip leiddi hækkanir á aðalmarkaði Kauphallarinnar en þrettán af tuttugu félögum voru græn í viðskiptum dagsins. Gengi flutningafélagsins hækkaði um 6,5% í 1,5 milljarða veltu og stendur nú í 492 krónum á hlut, það hæsta í sögu félagsins. Hlutabréfaverð Eimskips hefur hækkað um 170% á einu ári.

Sjóður í stýringu Stefnis, sjóðastýringarfyrirtæki Arion banka, keypti í Eimskip fyrir tæplega 51 milljón í gær, sé miðað við lokagengi flutningafélagsins í gær. Sjóðir Stefnis eru nú komnir með yfir 5% í atkvæðarétt hjá Eimskipi.

Marel hækkaði einnig um 3,5% í 450 milljóna viðskiptum í dag. Gengi Marels stendur nú í 884 krónum á hlut en félagið hefur hækkað um nærri 9% frá byrjun síðustu viku.

Flugfélögin Icelandair og Play hækkuðu bæði um tæplega 2% í viðskiptum dagsins, Icelandair í 286 milljóna veltu og Play í 156 milljóna veltu.

Mesta veltan í dag var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 0,8% í 1,7 milljarða viðskiptum.