Gengi evru lækkaði um 1,2% gagnvart bandaríkjadollara í morgun og kostaði hún á tímabili 1,1864 dollara. Er það lægsta gildi hennar síðan í marsmánuði árið 2006, en hún hefur hins vegar hækkað örlítið síðan og stendur nú í 1.19370 dollurum. BBC News greinir frá þessu.

Lækkunin kemur í kjölfar ummæla Mario Draghi, seðlabankastjóra Evrópu, þar sem hann ræddi breytingar á peningastefnu bankans. Talaði hann þar um að verðhjöðnun væri raunveruleg hætta á Evrusvæðinu og Seðlabanki Evrópu væri tilbúinn að bregðast við með aðgerðum. Einnig hefur stjórnmálastaða Grikklands haft áhrif á stöðuna.