Gengi evru gagnvart Bandaríkjadal náði sögulegum hæðum í gær og fór það í 1,4065. Ástæðuna fyrir lækkuninni má rekja til lækkunar stýrivaxta í Bandaríkjunum á þriðjudag og væntinga um enn frekari vaxtalækkanir þar í landi vegna efnahagsástandsins. Bloomberg fréttastofan hefur eftir yfirmanni gjaldeyrisviðskipta TD Securities að með ákvörðun sinni hafi bandaríski seðlabankinn í raun kastað dalnum fyrir ljónin. Veikingin var einnig knúin áfram af frétt sem birtist í breska blaðinu Daily Telegraph um að stjórnvöld í Sádi-Arabíu kynnu að binda endi á fastgengisstefnu sína gagnvart dalnum. Talsmaður þeirra vísaði þessu hinsvegar á bug.

Þrátt fyrir að fram hafi komið máli Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, að stoðir fjármálakerfis Bandaríkjanna væru sterkar er hann kom fyrir fjármálanefnd fulltrúardeildarinnar og að Hank Paulson, fjármálaráðherra, hafi fullvissað sömu nefnd um að undirliggjandi styrkur hagkerfisins þyldi núverandi titring var það ekki til þess draga úr veikingu dalsins.

Samfæra lækkuninni hækkaði verð á gulli á mörkuðum og hefur það ekki verið hærra í 27 ár. Vaxtamunur tveggja ára og tíu ára bandarískra ríkisskuldabréfa hefur ekki verið meiri síðan í maí árið 2005 og er það til marks um að fjárfestar telji að vaxtalækkanir seðlabankans muni orsaka verðbólgu. Í frétt Bloomberg um horfurnar á gjaldeyrismörkuðum kemur jafnframt fram að framvirkir samningar gefi til kynna að 74% líkur séu á frekari stýrivaxtalækkun í Bandaríkjunum á næsta vaxtarákvörðunardegi, sem er 31. október.

Víðtækar afleiðingar
Veik staða Bandaríkjadalsins um þessar mundir kann að hafa víðtækar afleiðingar. Sérfræðingar segja að sársaukamörk útflutningsiðnaðar á evrusvæðinu séu við gengið 1,4 Bandaríkjadali. Evrópskir stjórnmálamenn, með Nicolas Sarkozy forseta Frakklands fremstan í flokki, hafa kvartað yfir peningamálastefnu Seðlabanka Evrópu á þeirri forsendu að hún taki tillit til annars en verðstöðugleika. Líklegt þykir að þær gagnrýnisraddir verði háværari verði veiking á gengi dalsins gagnvart evru viðvarandi. Margir telja þá þróun líklega. International Herald Tribune hefur eftir Jim McCormick, yfirmanni gjaldeyrisrannsókna hjá Lehman Brothers í London, að gengi evrunnar gagnvart dalnum kunni að fara 1,45 dali.

Sérfræðingar hafa lengi spáð veikingu dalsins gagnvart helstu gjaldmiðlum, meðal annars sökum viðvarandi viðskiptahalla og fjárlagahalla sem tilkominn er vegna stríðsreksturs, alþjóðlegra öryggisskuldbindinga og nýlegra skattalækkana. Veiking dalsins um þessar mundir birtist fyrst og fremst í styrkingu á gengi evru en á sama tíma halda mikilvæg ríki í alþjóðahagkerfinu, eins og Kína, gengi gjaldmiðla lágu til þess að styðja við bakið á útflutningsiðnaði. Það hafa fyrst og fremst verið bandarísk stjórnvöld sem hafa sett þrýsting á kínversk stjórnvöld um að endurmeta gengisstefnu sína. Ljóst er að þrýstingurinn mun aukast: Haft er eftir Christine Lagarde í International Herald Tribune í gær að styrkur evrunnar sé áhyggjuefni fyrir Evrópumenn og hún muni ræða við kínverska ráðamenn um gengi evru gegn júaninum, en fjármálaráðherrann er í opinberri heimsókn í Kína.

Veiking kann að breyta samsetningu gjaldeyrisforða
Í breska blaðinu Financial Times er leitt líkum að því að veiking dalsins kunni jafnframt að flýta fyrir því að ríki sem ráða yfir gríðarlega miklum gjaldeyrisforða breyti samsetningu hans á kostnað Bandaríkjadals. Sérstaklega er horft til Kína hvað þetta varðar, en ekkert ríki á jafn mikið af bandarískum skuldabréfum. Blaðið hefur eftir Simon Derrick, sem starfar hjá Bank of New York Mellon, að þegar nýstofnaðir ríkisfjárfestingasjóðir Kínverja taki til starfa kunni það að leiða til enn frekari veikingar dalsins. Sjóðnum, sem hefur fjárfestingargetu upp á 200 milljarða dala, verður varið til fjárfestinga í eignum sem alla jafna eru arðbærari en ríkisskuldabréf.