Samningar hafa náðst milli Microsoft Íslandi og höfuðstöðva Microsoft um að öll viðskipti íslenskra fyrirtækja og almennings við Microsoft muni miðast við að gengi evrunnar sé 120 fram til júníloka.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi en slíkt fyrirkomulag hafði verið í gildi frá byrjun desember en rann út 10. mars síðastliðinn.

Fram kemur í tilkynningunni að evrugengi Microsoft hér á landi mæltist mjög vel fyrir meðal samstarfsaðila Microsoft Íslandi og viðskiptavina og því var lögð mikil áhersla á það við Microsoft að samningarnir yrðu endurnýjaðir. Það hefur nú tekist og verður skrifað undir samninga í dag.

„Það skiptir miklu máli að hafa náð samningum um áframhaldandi evrugengi Microsoft,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi í tilkynningunni.

„Þessi tilhögun hefur mælst afar vel fyrir meðal samstarfsaðila okkar og viðskiptavina og hjálpað þeim við að komast í gegnum erfitt tímabil. Næstu mánuðir munu ekki síður reyna á íslenskt atvinnulíf og því lögðum við hart að Microsoft að láta ekki staðar numið. Sem betur fer bar það árangur og þar með getum við áfram stigið ölduna með íslenskum fyrirtækjum og stofnunum og lagt okkar af mörkum við enduruppbyggingu íslensks atvinnulífs.“

Þá kemur jafnframt fram að þetta eru ekki einu aðgerðir Microsoft Íslandi til að koma til móts við íslenskt efnahagslíf síðustu mánuðina. Í nóvember fékk Microsoft Íslandi sérstaka flýtimeðferð hjá höfuðstöðvum Microsoft við að innleiða svokallað BizSpark-verkefni hér á landi, en það miðar að því að veita sprotafyrirtækjum aðgang að hugbúnaði og þróunartólum án endurgjalds.