Skuldakreppan á evrusvæðinu og hugsanleg lækkun á lánshæfismati helstu evruríkja hefur haft neikvæð áhrif á gengi evrunnar. Það hefur nú ekki verið lægra gagnvart helstu viðskiptamyntum um 15 mánaða skeið. Í umfjöllun Reuters-fréttastofunnar um skuldakreppuna í morgun kemur fram að matsfyrirtækið Standard & Poor's hafi greint frá því í síðasta mánuði að svo kunni að fara að lánshæfiseinkunnir Frakklands verði lækkaðar fljótlega. Landið er með einkunnina AAA. Ekki megi jafnframt útiloka að lánshæfiseinkunnir Þýskalands verði sömuleiðis lækkaðar þótt Frakkland þyki berskjaldaðra fyrir áhrifum skuldakreppunnar en hitt landið.