Skuldakreppan á evrusvæðinu og ráðaleysi leiðtoga evruríkjanna til að slá á hana olli því að evran lét undan á árinu. Gengisvísitala hennar lækkaði um 1,8% á sama tíma og aðrir helstu gjaldmiðlar heimsins styrktust, samkvæmt samantekt Bloomberg-fréttastofunnar.

Þau Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, funduðu margoft á árinu í augnamiði að slá á skuldakreppuna. Þau og fleiri þjóðarleiðtogar evruríkjanna ásamt öðrum ráðamönnum náðu sáttum um aðgerðir til að forða Grikklandi, Írlandi og Portúgal frá gjaldþroti. Ítalía og Spánn eru hins vegar enn á bólakafi í skuldafeninu. Sarkozy fer til Berlínar enn eina ferðina til fundar við Merkel um skuldakreppuna í annarri viku janúar. Að þessu sinni stefna þau á að ræða meðal annars um þær hömlur á skuldsetningu sem koma á í veg fyrir svimandi halla á ríkisrekstrinum sem lagðar voru á herðar evruríkjanna í byrjun mánaðar.

Búist við að evran veikist meira

Bloomberg reiknar út sérstaka myntvísitölu sem samanstendur af 10 helstu gjaldmiðlum heimsins. Þar á meðal eru Bandaríkjadalur, japanskt jen og fleiri gjaldmiðlar.

Af þeim myntum sem mynda körfuna hefur gengi jensins hækkað mest, eða um 5,1%. Bandaríkjadalur styrktist um 1,4% og nýsjálenski dalurinn styrkst um 0,3%. Ástralski dollarinn veiktist um 0,3% á sama tíma.

Svo slakt er gengi evrunnar nú um stundir gagnvart öðrum myntum. Hún hefur fallið um 7,8% gagnvart jeni á árinu og kostar nú minna en 100 japönsk jen. Annað eins hefur ekki sést síðan í desember fyrir ellefu árum. Meðalspá hagfræðinga Bloomberg gerir ráð fyrir að evran muni gefa frekar eftir á fyrstu mánuðum nýs árs.