Gengi bréfa bandaríska fyrirtækisins Facebook, Inc., sem rekur samnefndan samfélagsmiðil og skyldar vörur, auk Instagram, Oculus og samskiptaforritin Messenger og WhatsApp, náði í dag methæðum.

Þegar þetta er skrifað hefur gengið hækkað um 0,22%, upp í 218,79 Bandaríkjadali, en lokagengi bréfanna í gær nam 218,30 dölum, sem er hærra en fyrri hápunktur þegar það náið 217,50 dölum í júlí 2018 að því er FT greinir frá.

Í millitíðinni lækkaði gengi félagsins, meðal annars vegna hneykslismála í kringum hneykslismál vegna notkunar persónuupplýsinga í kringum kosningabaráttu og aðgerða Cambridge Analytica og annarra aðila. En hækkunin undanfarið kemur til af því að tekjutölur þess fóru fram úr væntingum markaðsaðila á þriðja ársfjórðungi síðasta árs.

Miðað við lokagengi dagsins í gær er heildarverðmæti Facebook samsteypunnar 622 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 77 þúsund milljörðum króna, eða 77 billjónir króna. Það nemur um þrjátíufaldri landsframleiðslu Íslands.

Keppinautar Facebook, Apple og móðurfélag Google, Alphabet, eru jafnframt að hækka, þannig hefur gengi Apple hækkað um 0,57% það sem af er degi, upp í 310,25 dali hvert bréf, en í gær náði virði félagsins 1.370 milljörðum dala. Alphabet hefur svo hækkað um 0,90%, upp í 1.432,62 krónur það sem af er viðskiptadegi í Bandaríkjunum.