Hlutabréfaverð í Finnair náði nýjum hæðum í dag vegna vangaveltna um stöðu FL Group innan félagsins.

Um hádegisbilið í dag var verslað með bréf félagsins á 14.17 evrur, og hefur verðið ekki verið hærra síðan flugfélagið var sett á markað í júní 1989, en bréfin lækkuðu svo stuttu síðar, um 0,3%.

Greiningardeildir benda á að kaup FL Group í Finnair í síðustu viku sé ástæða hækkunnar síðustu daga. Að kaupin ýti genginu upp.

Skarphéðinn Berg Steinarsson sagði í viðtali við finnska viðskiptablaðið Kauppalehti að FL Group sjái mikil samlegðaráhrif með Finnair.

?Áhugaverð spurning er hvað þeir meina með ?samlegðaráhrif' því það er ekki nauðsynlegt að eiga hlut í flugfélagi til þess að eiga í samstarfi" segir Dengt Dahlstrom, fjármálaráðgjafi hjá eQ Bank.

Finnska ríkið á 57% í Finnair. Ríkisstjórnin hefur gefið vilyrði fyrir því að selja eignarhlutinn niður að 50,1%. Aftur á móti þykir ólíklegt að pólitískur vilji sé til staðar að selja hluti ríkisins.

?Stefnan hefur verið að halda því sem við eigum fyrir" segir Ikka Puro, sem sér um fjárfestatengsl finnska ríkisins.