Gengi hlutabréfa í breskum flugfélögum hækkaði aftur í morgun, en gengi þeirra hafði lækkað talsvert við fregnir af handtöku hryðjuverkamannanna í London í gær.

Rekstur flugvalla hefur gengið betur í dag, en aflýsa þurfti hundraða flugferða í gær. Vegna mikillar aukningar öryggisráðstafanna myndaðist örtröð á flestum flugvöllum og þurfti því að vísa flugferðum frá. Þó svo að búist sé við því að færri flugum verði aflýst í dag má enn vænta mikilla tafa, segir í frétt Dow Jones.

British Airways, sem aflýsti 400 flugferðum í gær, hækkaði um 0,9% í morgun. Lággjaldaflugfélagið easyJet hækkaði um 0,9%.

Þær miklu öryggisráðstafanir sem settar voru á í gær verða enn við lýði í dag, þar á meðal bann við öllum handfarangri og ekkert er víst um hvað það varir lengi, segir í fréttinni.