Hlutabréf norræna flugfélagsins SAS hafa fallið um 3% það sem af er degi í kauphöllinni í Stokkhólmi. Eldgosinu í Grímsvötnum er kennt um enda ríkir mikil óvissa um hver áhrif þess verða á flugumferð í Evrópu á næstu dögum og vikum. Sömuleiðis hafa hlutabréf annarra evrópska flugfélaga lækkað nú í morgunsárið, þ.m.t. EasyJet, Ryanair. Lufthansa og Air France/KLM. Fallið er á bilinu 3-6%.

Sænska fréttaveitan TT hefur eftir Malin Selander, upplýsingafulltrúa hjá SAS, að Ameríkuflug á vegum fyrirtækisins fari suður fyrir Ísland og flugtíminn lengist því um 30-60 mínútur.