Bank of America hefur nú gengið frá kaupum sínum á fjárfestingabankanum Merrill Lynch og að sama skapi hefur Wells Fargo gengið frá kaupum á Wachovia bankanum en allir eru þessir bankar bandarískir.

Merrill Lynch er 94 ára gamall fjárfestingabanki en frá og með deginum í dag verður hann hluti af Bank of America samstæðunni. Wachovia var stofnaður árið 1879 en gengið var frá kaupum Wells Fargo á bankanum í gær.

Bank of America greiðir fyrir Merrill Lynch með útgáfu nýrra hlutabréfa að verðmæti um 24 milljarða dala á meðan Wells Fargo greiðir um 12,7 dali í reiðufé fyrir Wachovia bankann.

Með yfirtökunni á Merrill Lynch verður Bank of America stærsta bankasamstæða Bandaríkjanna en Wells Fargo er nú fjórða stærsta bankasamstæða. Þarna á milli koma JP Morgan og Citigroup.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar töpuðu Merrill Lynch og Wachovia alls um 48 milljörðum dala á fyrstu níu mánuðum síðasta árs en þar var helst um að ræða afskriftir vegna fasteignalána og annarra slæmra veða.

Viðræður milli bankanna gengu hratt fyrir sig þegar þær hófust formlega snemma í haust og að sama skapi veittu samkeppnisyfirvöld vestanhafs leyfi fyrir samrununum með skjótum hætti.