Áreiðanleikakönnun vegna kaupa Boga Þórs Siguroddssonar á öllu hlutafé í Sindra-Stáli hf. er nú lokið. Gengið var frá samningum um kaupin 15. júní sl. með venjulegu fyrirvara um áreiðanleikakönnun. Nú er búið að hnýta alla enda varðandi kaupin sjálf en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins á þó eftir að ganga endanlega frá starfslokasamningi við Bergþór Konráðsson forstjóra.

Bogi Þór átti fyrir rafverktaka- og verslunarfyrirtækið Johan Rönning hf. sem hann keypti 2003 af Jóni Magnússyni og Ástu Sylvíu Rönning. Bogi sagði í samtali við Viðskiptablaðið í tilefni kaupanna að hann sæi ýmis tækifæri í því að reka Sindra við hliðina á Johan Rönning. Hann segist fara þarna inn með opnum huga og býst ekki við að gera stórvægilegar breytingar á rekstri Sindra-Stáls.

Áætluð velta Sindra-Stáls hf. á árinu 2005 er um 1,8 milljarðar króna. Félagið var stofnað 1949 og flytur inn stál, málma, byggingarvörur, festingarvörur, vélar og verkfæri. Auk þess rekur félagið verslanir í Reykjavík, Hafnarfirði og Akureyri.