Lagt verður til við hluthafafund að hlutafé FL Group verði aukið um 44 milljarða króna að markaðsvirði og verður eigið fé þá um 65 milljarðar króna. Þetta kemur í kjölfar þess að samningur hefur verið undirritaður um kaup á danska lággjaldaflugfélaginu Sterling sem er fjórða stærsta lágfargjaldaflugfélag í Evrópu. Heildarvelta rekstrarfélaga FL Group verður um 100 milljarðar króna eftir kaupin.

Kaupverðið er 1.500 milljónir danskra króna, eða um 14,6 milljarðar íslenskra króna. Hluti kaupverðs er afkomutengdur og náist ekki ákveðinn árangur getur kaupverðið lækkað um allt að 500 milljónir danskra króna, um 4,9 milljarða íslenskra króna. Ákvæðin eru bundin því að félagið nái 3,5 milljarða kr. hagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBIDTU). Einnig eru ákvæði um að kaupverð geti hækkað ef betri árangur næst. 11 milljarðar eru greiddir í peningum en afgangurinn í nýju hlutafé.

Sölubann er á hlutabréfum fram til 31. mars 2007. Sterling verður áfram rekið sem sjálfstætt rekstrarfélag, en FL Group mun taka við rekstri félagsins 1. janúar 2006 að gefnu samþykki samkeppnisyfirvalda.

Hannes Smárason verður forstjóri FL Group. FL Group og Kaupþing banki hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf um flugvélaleigu. FL Group mun tryggja sér 3,5-4,5 milljarða króna söluhagnað. Yfir 8 milljarða króna hagnaður fyrir skatta fyrstu 9 mánuði ársins hjá FL Group samkvæmt bráðabirgðauppgjöri.