Lokið var við pappírsvinnu klukkan 6: 30 í morgun að staðartíma um endurreisn  General Motors Co. Samkvæmt frétt The Detroit News mun í leiðinni verða hrist upp í yfirmannateymi fyrirtækisins og verður Fritz Henderson nýr forstjóri GM.   Sérstök fréttaútsending var um þennan viðburð til starfsmanna klukkan 8:30 í morgun að staðartíma. Þar kom fram að ríkissjóður Bandaríkjanna hafi samþykkt að nýja félagið taki yfir bestu bitana úr búi gamla GM. Mun bandaríska ríkið einnig eiga 60,8% hlut í GM gegn því að dæla 50 milljörðum dollara inn í endurreist félag.    Með breytingunni verða einnig skornar burtu milljarða dollara skuldir og átta bílategundir detta út úr framleiðslulínu GM. Um leið verður starfsmönnum fækkað mjög verulega miðað við það sem áður var. Gert er ráð fyrir því að í árslok 2010 verði starfandi 34 samsetningalínur og stönsunarverksmiðjur en ekki 47 eins og var 2008. Þá er gert ráð fyrir að 100% afköstum verði náð á árinu 2011.