Hlutabréfaverð tölvu- og raftækjaverslunarkeðjunnar GameStop tvöfaldaðist á síðustu níutíu mínútunum fyrir lokun markaða í gær. Viðskipti með hlutabréf GameStop voru stöðvuð í tvígang af sjálfvirkum sveiflujafnara (e. stabiliser) í gær.

Hlutabréf GameStop hafa vakið mikla athygli undanfarinn mánuð vegna samráðs dagkaupmanna , margir frá spjallborðinu r/wallstreetbets á Reddit, um að þrýsta gengi bréfanna upp. Markmiðið var að valda skortsölum tapi, líkt og fyrirtækinu Citron Research sem hafði gefið út að það hygðist skortselja bréfin.

Hækkunin á GameStop leiddi einnig til aukins áhuga á öðrum vinsælum hlutabréfum meðal Reddit-fjárfestanna. AMC, sem rekur kvikmyndahús, hækkaði um 18% í gær, fataverslunin Express hækkaði um 41% og svo hækkuðu hlutabréf BlackBerry um 9%.

Margir fögnuðu fréttunum á WallStreetBets spjallrásinni en aðrir furðuðu sig á hvað væri á bak við þessar miklu hækkanir. Viðmælandi Financial Times telur að virkni á afleiðumarkaði gæti hafa haft áhrif á verðið en fjöldi kauprétta á hlutabréf GameSop náði sínu hæsta stigi á síðustu þremur vikum.