Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkkaði um 0,86% í viðskiptum dagsins í dag og endaði í 1.565,57 stigum.

Gengi bréfa HB Granda hækkaði langmest allra skráðra fyrirtækja í kauphöllinni, eða um 3,10% í viðskiptum dagsins í dag. Vekur það nokkra athygli sökum þess að Rússar hafa sett bann á fiskinnflutning frá Íslandi og mun það hafa umtalsverð áhrif á afkomu HB Granda. Lokagengi HB Granda í gær var 38,7 krónur á hlut og lengst af í dag voru viðskipti með bréf félagsins á bilinu 38,45-38,65 krónur á hlut. Síðustu tíu mínúturnar fyrir lokun urðu hins vegar nokkur viðskipti á genginu 39,0 og svo fimm sekúndum fyrir lokun voru ein viðskipti á genginu 39,9, sem var lokagengið. Alls skiptu 6,5 milljónir hluta um hendur í þessum nokkrum síðustu viðskiptum.

Gengi bréfa Icelandair hækkaði um 1,13% í dag og Fjarskipta um 0,96%. Gengi bréfa Eikar lækkaði aftur á móti um 0,43%. Alls nam velta á hlutabréfamarkaði 1.332,3 milljónum króna og þar af var velta með bréf HB Granda 393,5 milljónir króna.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,3% í dag í 12,8 milljarða króna viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,2% í 0,4 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,4% í 12,4 milljarða viðskiptum. Engin velta var með bréf í vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa í dag.