Gengi bréfa í HB Granda hefur lækkað um 10,65% frá gengi bréfa félagsins eins og það var skráð á First North-markaðinn það sem af er degi. Það sem stendur nú á sömu slóðum og það var í hlutafjárútboði 11. apríl síðastliðinn. Viðskipti hófust með hlutabréf HB Granda á Aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.

Í hlutafjárútboðinu seldu Arion banki og félögin Fiskveiðahlutafélagið Venus og Vogun 27% hlut í HB Granda á genginu 27 krónur á hlut. Á sama tíma stóð gengi hlutabréfa HB Granda í 31 krónu á hlut á First North-markaðnum.

Það sem af er degi, eða þegar klukkan er 10:45, hafa bréf í félaginu selst fyrir 101 milljón króna.

Mest sala í morgun hefur verið með bréf í Eimskipi eða fyrir 291 milljón króna og hefur gengið þeirra hækkað um 0,61%. Þá hafa bréf í N1 selst fyrir 214 milljónir króna og hefur gengið lækkað um 0,56%.