Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins lækkaði um 1,08% í tæplega 2,7 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Gengið er komið niður í 8,25 krónur á hlut sem er fimm aurum yfir útboðsgengi félagsins í aðdraganda skráningar á markað í byrjun mánaðar.

Á móti hækkaði gengi hlutabréfa Icelandair Group um 0,6% í rúmlega 12,7 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins stendur nú í 6,74 krónum á hlut.

Önnur hreyfing var ekki á gengi hlutabréfa í Kauphöllinni.

Úrvalsvísitalan breyttist ekkert frá í gær og stendur hún því enn í tæpum 1.053 stigum. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um hlutabréfaviðskiptin í Kauphöllinni í gær sagði að sumarið væri greinilega komið þangað enda veltan í lægri kantinum. Þá var hún tæpar 60 milljónir króna. Veltan var heldur minni í dag, rúmar 44 milljónir króna.