Gengi hlutabréfa Haga hefur hækkað um 0,56% í Kauphöllinni í dag og stóð um tíma í 18,10 krónum á hlut og hafði það aldrei verið hærra. Til samanburðar stóð gengi bréfa félagsins í 13,5 krónum á hlut í almennu hlutafjárútboði fyrir skráningu smásölurisans á markað um miðjan desember. Samkvæmt því hefur gengi bréfanna hækkað um 34% síðan þá.

Á sama tíma hefur gengi bréfa Icelandair Group hækkað um 0,67%. Gengi bréfa flugrekstrarfyrirtækisins stendur í rétt rúmum sex krónum á hlut og hefur annað eins ekki sést síðan fyrir þremur árum þegar gengið var á hraðri niðurleið eftir að kröfuhafar höfðu gengið að eignahlutum stórra hluthafa.

Á meðal annarra hlutabréfa sem hafa hækkað í verði hefur gengi bréfa Össurar hækkað um 2,51%.

Á sama tíma hefur gengi bréfa færeysku félaganna Atlantic Petroleum og BankNordik lækkað.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,61% og stendur hún nú í 1.034 stigum.

Nasdaq - Hagar
Nasdaq - Hagar
© BIG (VB MYND/BIG)
Finnur Árnason, forstjóri Haga, brosir í kampinn við skráningunni félagsins á markað fyrir áramót. Með honum á myndinni er Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.