Gengi hlutabréfa í króatíska samheitalyfja fyrirtækinu Pliva gaf eftir í gær eftir látlausar hækkanir, sem sérfræðingar segja að rekja megi til samkeppni Actavis og bandaríska félagsins Barr Pharmaceuticals um að kaupa fyrirtækið.

Gengi bréfa Pliva lækkaði um 1,26% í gær endaði í 780 króatískum kúnum á hlut. Kauptilboð Actavis í fyrirtækið nemur 723 kúnum á hlut en Barr hefur boðið 743 kúnur á hlut. Bæði fyrirtækin hafa sykrað kauptilboð sín með 12 kúnu arðgreiðslu á hlut.

Búist er við því að ákveðið verði hvaða fyrirtæki kaupir Pliva í lok september eða í byrjun október. Sérfræðingar segja líklegt að gengið gefi eitthvað eftir á næstu dögum, eða þangað til að frekari fregnir berist af yfirtökutilboðunum, en talið er að Actavis þurfi að hækka formlegt kauptilboð sitt í Pliva til að ná að landa fyrirtækinu.