Gengi íslenskra hlutabréfa lækkaði mikið við opnun markaða núna í morgun og hefur Úrvalsvísitalan fallið um 1,46% þegar þetta er skrifað. Lækkunin kemur í kjölfar mikillar hækkunar í lok síðustu viku, en á fimmtudag hækkaði gengi vísitölunnar um 1,88%. Fór hún þá í fyrsta sinn frá efnahagshruni yfir 1.600 stig, en hún stendur nú í 1.576 stigum.

Gengi hlutabréfa í Össuri hefur lækkað mest, eða um 6,38%, en þó í afar lítilli veltu sem telur 11 milljónir króna. Þá hefur gengi bréfa í Marel lækkað um 2,97% í 140 milljóna króna veltu, og gengi bréfa í Icelandair hefur lækkað um 1,97% í 303 milljóna króna veltu.

Miklar lækkanir hafa verið á verði hlutabréfa á heimsmarkaði í morgun . Þannig lækkaði gengi evrópskra hlutabréfavísitalna mikið við opnun markaða, en FTSE-vísitalan í Lundúnum hefur nú lækkað um 2,4% og Dax-vísitalan í Frankfurt um 2,58%. Komu lækkanirnar í kjölfarið á verðfalli á asískum hlutabréfamarkaði, þar sem Shanghai-vísitalan lækkaði t.a.m. um 8,5% í nótt.