Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins hefur hækkað um rúm 1,9% í 111 milljóna króna veltu með bréfin í Kauphöllinni það sem af er degi. Félagið birti uppgjör sitt í gær. Þar kemur fram að hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 557 milljónum króna sem var rúmlega 70% meira en á sama fjórðungi fyrir ári.

Hagnaður Regins dróst hins vegar saman á milli ára ef litið er til fyrstu níu mánuða ársins. Það sem af er ári nemur hann 1.091 milljónum króna samanborið við 1.304 milljónir á sama tíma í fyrra.

Gengi hlutabréfa Regins stendur nú í 14,26 krónum á hlut og hefur það ekki verið hærra frá skráningu á markað.