Gengi hlutabréfa Marel féll um 2,93% í 136 milljóna króna viðskiptum á tiltölulega veltumiklum degi í Kauphöllinni í dag. Gengi hlutabréfanna stendur nú 132,5 krónum á hlut og hefur það ekki verið lægra síðan um miðjan janúar síðastliðinn.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 1,57%, bréf BankNordik fóru niður um 0,76% og stoðtækjafyrirtækisins Össurar um 0,5%.

Gengi bréfa fasteignafélagsins Regins hækkaði á sama tíma um 1,4% í tæplega 270 milljóna króna veltu. Gengi hlutabréfanna stendur nú í 8,69 krónum á hlut og hefur það ekki verið hærra.

Úrvalsvísitalan hélt áfram að lækka og fór hún niður um 1,28% í rúmlega 500 milljóna króna viðskiptum. Hún stendur nú í 976,63 stigum og hefur ekki verið lægri síðan í febrúar.