Gengi hlutabréfa í United Airlines hrundu í gærmorgun í kjölfar þess að fréttir birtust um að félagið hefði sótt eftir að vera tekið til gjaldþrotaskipta. Gengið féll um 75% eftir að markaðir voru opnaðir vestanhafs og fór það niður í 3 Bandaríkjadali. Hinsvegar reyndist vera maðkur í mysunni og fjárfestar voru að selja vegna sex ára gamallar fréttar sem var endurbirt á Bloomberg-fréttastofunni fyrir mistök.

Það var ekki fyrr en að einn milljarður Bandaríkjadala af markaðsverðmæti United Airlines var horfinn að fjárfestar fóru að gruna að ekki væri allt með felldu. Í ljós kom að um var að ræða frétt frá árinu 2002 um að flugfélagið hafi sóst eftir greiðslustöðvun. Félagið hóf aftur eðlilegan rekstur árið 2006 og þótt að það standi nú í uppsögnum vegna hækkandi eldsneytisverð rambar það ekki á barmi gjaldþrots.

Svo virðist sem að blaðamaður sem sér Bloomberg fyrir fréttum hafi rekist á fréttina en flugfélagið kennir vefsíðu dagblaðsins South Florida Sun Sentinel um upphaflega birtingu. Fréttina var að finna í gagnsafni The Chicago Tribune en sama fyrirtæki, Tribune Co, á það blað auk South Florida Sun Sentinel. Í yfirlýsingu frá Tribune Co kemur meðal annars fram að fréttin sem birtist hafi verið klárlega merkt í safni yfir gamlar fréttir og svo virðist sem að blaðamaðurinn hafi ekki lesið fréttina almennilega áður en hann endurbirti. Jafnframt er bent á að þeir sem hafi lesið greinina hafi mátt gera sér grein fyrir að hún sé frá árinu 2002.