Gengi hlutabréfa króatíska samheitalyfjafyrirtækisins Pliva náði methæðum rétt eftir hádegi í dag vegna væntinga um að Actavis og bandaríska lyfjafyrirtækið Barr séu að tilbúin að hækka kauptilboð sín í fyrirtækið, segja sérfræðingar í Króatíu.

Gengi hlutabréfa Pliva hækkaði um 1,17% rétt fyrir klukkan eitt í dag í 790 króatískar kúnur hluturinn. Gengið er nú hærra en óformleg kauptilboð Actavis og Pliva, sem bæði samsvara um 2,3 milljörðum Bandaríkjadala eða um 170 milljörðum íslenskra króna. Kauptilboð Actavis hljóðar upp á 723 kúnur en tilboð Barr hljóðar upp á 743 kúnur.

Búist er við formlegum kauptilboðum í Pliva seinna í vikunni. Actavis mun fara fram á að auka hlutafé félagsins að virði 200 milljónir evra til að fjármagna hugsanleg kaup á Pliva, samkvæmt frétt Icelandic Financial News á föstudaginn, en félagið hefur einnig tryggt sér lánsfjármögnun til að styðja við kaupin.

Pliva er skráð í kauphöllina í Zagreb og kauphöllina í London.