Greiningardeild Íslandsbanka reiknast að gengi krónunnar fyrir evru sé um 220 krónur í sölu Seðlabankans á erlendum íbúðabréfum til 26 lífeyrissjóða.

Þegar samningar voru undirritaðir í gær var stundargengi evru á innlendum markaði um 160 krónur. Seðlabankinn seldi bréfin fyrir hönd ríkissjóðs en ríkissjóður eignaðist bréfin í Avens-viðskiptum við Seðlabanka Lúxemborgar. Í þeim viðskiptum var gengi íslensku krónunnar fyrir evru um 250 krónur.

Viðskiptin milli Seðlabanka Íslands og lífeyrissjóðanna fara fram utan laga um gjaldeyrishöft, það er lífeyrissjóðirnir selja hluta af erlendum eignum sínum og kaupa íbúðabréfin sem eru í eigu ríkissjóðs. Íbúðabréfin eru verðtryggð, að jafnaði til 9 ára, og ávöxtunarkrafa þeirra er 7,2% sem útskýrir mun á því gengi sem lífeyrissjóðirnir kaupa á og stundargengi á innlendum markaði.