Verðmat hagfræðideildar Landsbankans á Icelandair Group hefur verið hækkað um 22% en bankinn metur gengi bréfa félagsins á 18,4 krónur að því er Fréttablaðið greinir frá. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hækkaði gengi bréfa Icelandair um rúm 4,6% í viðskiptum gærdagsins og stóð gengi bréfanna í lok viðskiptadags í 15,85 krónum.

Það sem af er viðskiptadegi hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 2,21% í 333 milljóna króna viðskiptum og er verð bréfanna nú komin í 16,20 krónur sem er rúmlega 88% af verðmati Landsbankans. Síðan markaðir lokuðu á þriðjudag þangað til nú hefur gengi bréfanna hækkað um 6,9%.

Samkvæmt bankanum eru vísbendingar um að ekki verði frekari samdráttur á tekjum á hvern sætiskílómetra og að betri rekstrarniðurstaða fáist samhliða vexti félagsins.

Bent er á að þó að hækkandi olíuverð geti haft neikvæð áhrif séu áhrifin verri fyrir suma keppinauta félagsins. Spáir hagfræðideild bankans því að EBITDA félagsins verði 189,4 milljónir Bandaríkjadala á árinu, sem og að árið 2017 hafi hún verið 168 milljónir dala en árið 2016 nam hún 220 milljónum dala.