Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi náði 2.147,71 stigi við lok viðskipta í dag, sem er enn eitt metið frá því hún var endurreist eftir hrun. Hækkaði vísitalan um 0,92% í viðskiptum dagsins, en heildarviðskiptin námu 2,7 milljörðum í kauphöllinni í dag.

Mest hækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða um 4,30%, upp í 10,43 krónur, í 252 milljóna króna viðskiptum. Næst mest hækkaði gengi bréfa Skeljungs, um 1,84, í 279 milljóna króna viðskiptum og nam gengið 8,29 krónum við lok viðskipta í dag. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun hefur verið barátta um stjórn félagsins.

Eik fasteignafélag lækkaði hins vegar mest í viðskiptum dagsins, nam lækkunin 1,83%, niður í 9,13 krónur, í 249 milljóna króna viðskiptum, en eins og fjallað var um eftir lokun markaða í gær, helmingaðist hagnaður fyrirtækisins milli ára á fyrsta ársfjórðungi.

Næst mest nam lækkun á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 1,33%, og er gengið nú 185,00 krónur. Lækkunin var þó í litlum viðskiptum, eða fyrir 12 milljónir króna.

Krónan og vísitölur Gamma

Íslenska krónan stóð í stað gagnvart evru í dag, og kostar hún 136,75 krónur, en hún styrktist gagnvart norðurlandamyntunum sem og þeim engilsaxnesku og veiktist hún gagnvart japanska jeninu og svissneska frankanum.

Þannig var veiking sænsku krónunnar mest gagnvart krónunni, eða um 0,71%, og fæst hún nú á 12,626 krónur meðan svissneski frankinn styrktist mest, um 0,22%, og fæst hann nú á 120,18 krónur.

Markaðsvísitala Gamma hækkaði um 0,29%, í 186,669 stig í tæplega 6,6 milljarða viðskiptum í dag, en skuldabréfavísitalan hækkaði um 0,05%, upp í 373,312 stig, í ríflega 3,1 milljarða viðskiptum. Hlutabréfavísitala fyrirtækisins hækkaði svo um 0,85%, náði upp í 492,171 stig, í tæplga 2,7 milljarða viðskiptum.