*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 30. ágúst 2019 17:22

Gengi Icelandair hækkar um meira en 5%

Úrvalsvísitalan er aftur komin yfir 2.000 stiga múrinn, en Brim og Arion hækka einnig nokkuð. Eimskip lækkar mest.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði síðasta viðskiptadag vikunnar og náði aftur upp fyrir 2.000 stigin, eða í 2.002,97 stig, en þó ekki jafnhátt og hún var í byrjun vikunnar. Við lok viðskipta á mánudag var hún í 2.006,94 stigum en á föstudaginn í 2.027,15 stigum.

Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 1,5 milljarði, en þar af voru mestu viðskiptin með bréf Arion banka fyrir 372 milljónir króna, en þau hækkuðu jafnframt þriðjumest, eða um 2,36%, upp í 78,0 krónur.

Mest hækkun var hins vegar á gengi bréfa Icelandair, sem fóru upp um 5,34% í þó ekki nema 35 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi bréfa flugfélagsins 7,30 krónur. Eftir dýfu vikunnar er gengið næstum því komið á sama og loka gengi mánudagsins, þegar gengið var 7,31 króna, en í dag bárust fréttir um að fjöldi flugmanna félagsins hefði tekið á sig kjaraskerðingu og færri flugtíma.

Næst mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Brim, áður HB Granda, eða 3,58% í 132 milljóna króna viðskiptum, upp í 37,60 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær nam hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi hátt í milljarði króna.

Bréf Eimskipafélags Íslands lækkuðu hins vegar mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,22%, í þó ekki miklum viðskiptum eða fyrir 43 milljónir króna. Eftir að félagið tilkynnti í gærkvöldi um hátt í 400 milljóna króna hagnað á öðrum ársfjórðungi er gengi bréfanna komið niður í 176,0 krónur.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Heimavalla, sem einnig komu með uppgjör í gær, en bréfin lækkuðu um 1,67% í örlitlum viðskiptum eða fyrir 3 milljónir króna. Fór gengið í 1,18 krónur en félagið samþykkti á hluthafafundi í dag endurkaupaáætlun á allt að 3% hlutafjár í félaginu.

Gengi krónunnar veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, nema sænsku krónunni, sem veiktist um 0,09% gagnvart þeirri íslensku og fæst nú á 12,767 krónur.

Mest var styrking japanska jensins eða um 0,81%, í 1,1814 krónur, næst mest Bandaríkjadalsins eða 0,50% í 125,50 krónur, og loks breska pundins, eða um 0,33% í 152,87 krónur. Gengi evrunnar gagnvart íslensku krónunni, hreyfðist ekki og er eftir sem áður 138,04 krónur.