Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur fallið um meira en 6% í Kauphöllinni. Við skrif fréttarinnar hefur verðið lækkað um 6,81% í heilum 2,5 milljarða króna viðskiptum. Deginum er þó ekki lokið enn og mögulegt er að verðið hækki eða lækki enn það sem eftir er af viðskiptadeginum.

Við lokun markaða í gær, fimmtudag, var verð á hvern hlut Icelandair 38,9 krónur, en verðið stendur nú í 36,5 krónum á hlut. Það hefur í viðskiptum dagsins farið niður í allt að 35,7 krónur á hlut. Fyrir ári síðan var verð á hvern hlut félagsins 21,6 krónur.

Við skrif fréttarinnar fór gengisbreytingin úr því að vera neikvæð um 8,23% í að vera neikvæð um 6,81%, svo ljóst er að miklar hreyfingar eru með bréf félagsins. Viðskiptin eru að öllum líkindum til komin vegna ársfjórðungsreiknings félagsins sem birtur var í gær.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um tapaði Icelandair Group 2 milljörðum króna á rekstri félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, segir fyrsta ársfjórðung að öllu jöfnu þungan í rekstri - ýmislegur kostnaður væri bókfærður á tímabilinu.