*

föstudagur, 24. september 2021
Innlent 5. ágúst 2021 17:07

Gengi Íslandsbanka komið í 114 krónur

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um 44,3% frá hlutafjárútboði bankans í júní síðastliðnum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitalan náði nýjum hæðum í 3.332 stigum við lokun Kauphallarinnar í dag. Vísitalan hefur hækkað um 30,4% í ár og um 108% frá því í mars á síðasta ári.

Íslandsbanki leiddi hækkanir á aðalmarkaðnum en bankinn hækkaði um 3,6% í viðskiptum dagsins. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 114 krónum á hlut og hefur alls hækkað um 44,3% frá því í hlutafjárútboðinu fyrir skráningu bankans í júní síðastliðnum en útboðsgengið var 79 krónur.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkaði um 1,2% í milljarðs króna veltu í dag. Næst mesta veltan var með hlutabréf Símans sem halda áfram ná nýjum hæðum. Hlutabréfagengi fjarskiptafélagsins náði nýju meti í 11,93 krónum á hlut en gengið hefur hækkað um 86% á einu ári.

Icelandair lækkaði um 2,9%, mest allra félaga Kauphallarinnar, í 63 milljóna króna veltu í dag. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,48 krónum. Play var eina félagið sem lækkaði á First North markaðnum en gengi flugfélagsins lækkaði um 1,7% og stóð í 23,1 krónu við lokun markaðarins.

Að venju var lítil velta á First North markaðnum en Solid Clouds hækkaði um 6,5% í tveggja milljóna króna veltu í dag. Viðskiptablaðið sagði frá því í morgun að Haraldur Þorleifsson, Bakkavararbræður, Sjóvá og Festi hefðu fjárfest nýlega í tölvuleikjafyrirtækinu. Fasteignafélagið Kaldalón hækkaði sömuleiðis um 3,9% og hefur nú hækkað um 83,5% á einu ári.