Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur fallið um 2% í fyrstu viðskiptum dagsins og er komið í 117,2 krónur á hlut. Viðskipti með bréfin nema 94 milljónum króna.

Gengi bréfa bankans er nú nánast það sama og söluverðið í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka sem fór fram eftir lokun markaða þann 22. mars síðastliðinn.

Söluverðið, sem nam 117 krónum á hlut, var 4,1% lægra en gengi bankans við lokun Kauphallarinnar sama dag og útboðið stóð yfir. Bankasýslan hefur þó bent á að salan í umræddu útboði samsvaraði um 300 daga veltu með bréf í bankanum og því væri ekki óeðlilegt að verðið hafi verið lægra en á markaði fyrr um daginn.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,8% það sem af er degi en hlutabréf hjá 15 af 20 félögum á aðalmarkaði Kauphallarinnar hefur fallið í fyrstu viðskiptum dagins.