Flökt á gjaldeyrismarkaði síðustu vikurnar hefur verið af svipaðri stærðargráðu og var við lýði þegar gjaldeyrismarkaðurinn var að fullu frjáls og spákaupmennska hafði mikil áhrif á skammtímahreyfingar.

Virðist sem veiking krónu frekar samrýmast áherslum ríkisstjórnar heldur en Seðlabankans, sem Greining Íslandsbanka segir að virðist hafa mismunandi áherslur í þessum málum.

Hefur gengi krónu lækkað um 4,1% miðað við gengisvísitölu frá því að tilkynnt var um losun fjármagnshafta fyrir tveimur vikum síðan en jafnframt er flöktið margfalt á við það sem var síðustu tvö árin.

Svipað flökt og árið 2009

Segir Íslandsbanki að horfa verði aftur til ársins 2009 til að finna viðlíka daglegt flökt, en þá var markaðurinn enn að koma á sig fótunum á ný eftir hrun.

Hins vegar hafi flöktið verið svipað á árunum 2001 til 2007 þegar ekki ríktu höft á gjaldeyrishreyfingar.

Sem dæmi um áherslur ríkisstjórnarinnar á að vinna gegn áframhaldandi styrkingu krónunnar nefnir bankinn orð fjármálaráðherrherra auk sérfræðihóps sem skipaður var um samkeppnishæfni þjóðarbúsins í ljósi styrkingarinnar.

Hins vegar hafi stjórnendur Seðlabankans talað með öðrum hætti og sagt styrkinginu hluta að aðlögun að breytti stöðu hagkerfisins og ekki væri hægt að fullyrða að gengið væri komið mikið yfir jafnvægi.

Dregið úr hraða styrkingar krónunnar

Bendir Greining Íslandsbanka á að dregið hafi úr hraða styrkingar krónunnar síðustu mánaða borið saman við tímabilið frá júlí til nóvember en eftir gengislækkun síðustu daga sé gengið komið á svipaðar slóðir og var á í ársbyrjun miðað við gengisvísitölu.

Því virðist stöðugleikinn nú vera meiri til lengri tíma litið sem ætti að hugnast ríkisstjórninni, en aukið flökt sé hægt að líta á sem aukið heilbrigðismerki sem Seðlabankinn hafi allt eins átt von á miðað við yfirlýsingar peningastefnunefndar.

Jafnframt hafi Seðlabankinn sjaldan haft jafnmikla burði eins og nú til að leggjast á móti skammtímasveiflum, telji hann ástæðu til. En ólíkt því sem var í gildi fyrir hrun sé hrein spákaupmennska án samsvarandi gjaldeyrisviðskipta ekki möguleg nú, þó nú nýti markaðsaðilarnir aukið frelsi til aukinnar skoðanaskipta um rétt gengi.