Verðmæti olíu og olíuafurða sem flutt er inn til landsins í krónum talið, sem og sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, hefur aukist verulega á undanförnum árum. Eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarmynd jókst verðmætið sem hlutfall af landsframleiðslu um 44% á milli áranna 2007 og 2008 og í krónum talið jókst verðmætið um rúm 65%.

olíuverð og olíuinnflutningur til Íslands
olíuverð og olíuinnflutningur til Íslands
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Eins og myndin sýnir glögglega jókst magn innfluttrar olíuvöru ekki að ráði á milli þessara ára og má því annars vegar draga þá ályktun að hækkandi heimsmarkaðsverði á hráolíu (sem leiðir til verðhækkana á öðrum olíuvörum) sé um að kenna og hins vegar að veiking krónunnar hafi haft sitt að segja en sem kunnugt er veiktist krónan nær allt árið 2008. Árið 2009 lækkaði verðmætið á ný, eins og sjá má, enda lækkaði hráolíuverð á ný og krónan náði stöðugleika en á síðasta ári jókst það aftur í takt við hækkandi olíuverð.