Fjöldi erlendra kvikmyndaverkefna sem unnin hafa verið hér á landi hefur aukist verulega á síðustu árum, en í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi, segir að skýringu á þessari aukningu sé frekar að finna í veikingu krónunnar en í endurgreiðslukerfi, þar sem 20% af framleiðslukostnaði við kvikmyndaframleiðslu er endurgreiddur af ríkinu.

Í skýrslunni er haft eftir hagsmunaaðilum og öðrum viðmælendum að án þessa kerfis myndi stór hluti af umsvifum kvikmyndaiðnaðarins hér á landi hverfa.

Í skýrslunni segir svo: „Það eru líklega tvær meginástæður fyrir aukningu erlendra verkefna hér á landi á þessu tímabili. Í fyrsta lagi féll gengi íslensku krónunnar í kjölfar bankahrunsins. Það hafði í för með sér hvetjandi áhrif á erlend fyrirtæki til að stunda kvikmyndagerð hér á landi þar sem innlendur kostnaður, mældur í erlendum gjaldeyri, lækkaði mikið. Þannig lækkuðu laun og annar kostnaður á Íslandi um u.þ.b. 42% í dollurum talið að raunvirði eftir að hafa rúmlega tvöfaldast frá árinu 2001.32 Í öðru lagi var endurgreiðsluhlutfallið hækkað úr 12% í 14% árið 2006 og í 20% í mars 2009, en eðlilegt er að áhrif þessara þátta komi ekki fram fyrr en einhverjum árum síðar.

Ætla má að gengið hafi yfirleitt meiri áhrif á kostnað erlendra aðila í erlendri mynt heldur en hækkun endurgreiðslna í íslenskum krónum.“

Í skýrslunni er tekið dæmi til útskýringar þar sem kostnaður bandarísks fyrirtækis í dollurum sem fellur til á Íslandi við framleiðslu á ímyndaðri kvikmynd er skoðaður. „Þessi kvikmynd hefði kostað 10 milljónir dollara árið 2007 en aðeins um 5,8 milljónir dollara árið 2013 og er þá aðeins búið að taka tillit til gengislækkunar íslensku krónunnar. Kostnaður í tengslum við upptökur hér á landi hefði því lækkað um 42% fyrir endurgreiðslur. Séu endurgreiðslur teknar með lækkar kostnaður þeirra um 46% og þannig hefði hækkun endurgreiðsluhlutfalls, úr 14% í 20%, skilað sér í auka 4 prósentustiga lækkun á kostnaði fyrir bandarískt kvikmyndafyrirtæki.“