Gengi krónunnar lækkaði umtalsvert á föstudaginn í kjölfar orðróms um að neikvæð frétt um íslenska fjármálaheiminn yrði birt í dönsku blaði um helgina, segir greiningardeild Glitnis.

?Gengi krónunnar hafði hækkað mikið fram að þessu og tímabært virtist að hagnaðartaka myndi keyra gengið eitthvað til baka. Blaðagreinin danska reyndist hins vegar hvorki fugl né fiskur og gengi krónunnar hefur hækkað talsvert í dag sem gefur jafnframt til kynna að söluhliðin á gjaldeyrismarkaði sé áfram sterk," segir greiningardeildin en gengi krónu hefur styrkst um 0,92% það sem af er degi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

?Í bráð virðist því sennilegt að framhald verði á leitni síðustu vikna og gengi krónunnar hækki eða sveiflist á tiltölulega þröngu bili. Vaxtaákvörðun Seðlabankans á fimmtudag og þau orð sem forsvarsmenn bankans munu samhliða láta falla um líklega þróun á næstunni gæti þó sett strik í reikninginn hvað gengið varðar en flest bendir þó til þess að vaxtamunurinn við útlönd verði áfram verulegur þegar horft er til næstu missera," segir greiningardeildin.