Krónan styrktist nú þriðja daginn í röð og endaði í 120,1 stigi, segir greiningardeild Landsbankans.

?Alls hækkaði gengi hennar um tæplega 1% í dag og hefur krónan því styrkst um 2% frá því fyrir síðustu helgi. Gengisvísitalan fór niður fyrir 120 seinni part dags, en Seðlabankinn hefur ekki skráð gengisvísitölu undir 120 frá því í mars.

Samkvæmt skráðu gildi vísitölu gengisskráningar hefur krónan styrkst um 11,6% frá því í lok annars ársfjórðungs en þó er hún enn tæplega 13% veikari en um síðustu áramót," segir greiningardeildin.

Það er mikill vaxtamunur og það mun leiða til aukinnar eftirspurnar eftir krónum og styrkja gengið á komandi vikum og mánuðum, að mati greiningardeildarinnar.

?[Við spáum] því að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast fram á næsta ár og að meðalgildi vísitölu gengisskráningar árið 2007 verði á milli 115 og 120," segir greiningardeildin.