Gengi krónu hefur gefið verulega eftir það sem af er degi og nemur lækkunin ríflega 3% frá opnun markaðar síðastliðinn mánudag þegar þetta er ritað, segir greiningardeild Glitnis.

?Hér er um að ræða áhrif frá hræringum á alþjóðamörkuðum, en gengi hávaxtamynta hefur almennt verið að lækka, en gengi lágvaxtamynta á borð við jen og svissneskan franka að hækka. Þannig hefur til dæmis gengi jens hækkað um rúmlega 8% gagnvart krónu á þessu tímabili.

Áhættufælni alþjóðlegra fjárfesta hefur snaraukist undanfarna viku og hefur vaxtamunarviðskiptum (e. carry trades) verið lokað í stórum stíl í öllum helstu hávaxtalöndum. Erlendir sérfræðingar spá því margir hverjir að eitthvert framhald kunni að verða á þessari þróun næstu daga þótt vaxtamunurinn verði vafalaust til þess að styðja við hávaxtamyntir á borð við krónuna þegar gengislækkunin er orðin næg til þess að fjárfestar telji tækifæri til nýrra vaxtamunarviðskipta,? segir greiningardeildin.