Gengi krónunnar hefur lækkað í morgun um 0,5% og bætist sú lækkun við talsverða lækkun síðustu daga.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en í gær lækkaði gengi krónunnar um 0,7% og hefur krónan nú lækkað um 2,9% frá því á föstudaginn.

Lokagildi krónunnar í gær var það lægsta á árinu. Viðskiptin í morgun hafa verið fremur lítil líkt og undanfarna daga og vikur. Evran kostar núna 184,1 krónur og hefur ekki verið dýrari á árinu. Dollarinn stendur í 128,5 krónur.

Greining Íslandsbanka segir að gjaldeyrishöft, afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd, háir innlendir vextir og inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hafi ekki náð því að styrkja gengi krónunnar undanfarið.

„Ákveðinn stöðugleiki náðist í sumar einfaldlega vegna þess að þá lágu viðskipti niðri að mestu og Seðlabankinn var afar duglegur við inngripin,“ segir í Morgunkorni.

„Nú er hins vegar byrjað að kvarnast úr krónunni aftur og er það áhyggjuefni í ljósi stöðu íslenskra fyrirtækja og heimila sem varla þola mikla gengislækkun til viðbótar við það sem orðið er. Gengislækkunin lýsir þeirri vantrú sem er á myntinni. Ætlunin er að fleyta krónunni á næstunni en ljóst er að talsverð vinna er eftir í því að byggja upp það traust á gjaldmiðlinum sem þörf er á til þess að krónan veikist ekki umtalsvert til viðbótar í kjölfar flots.“

Sjá nánar í Morgunkorni Íslandsbanka.