Gengisvísitala krónunnar fór undir 210 stig í dag samkvæmt skráningu á viðskiptavef Keldunnar. Hefur gengi krónunnar ekki mælst svo hátt síðan í apríl á síðasta ári eða í 16 mánuði. Gengið byrjaði að styrkjast í maí síðastliðnum en mánuðina á undan stóð gengisvísitalan í kringum 220 stig. Þegar gengisvísitalan lækkar er krónan að styrkjast gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Veltan á skuldabréfamarkaði í dag nam 6,1 milljarði króna. Heildarvelta verðtryggðra skuldabréfa var 3,4 milljarðar og velta með óverðtryggð skuldabréf var 2,7 milljarðar króna. Skuldabréfavísitala Gamma fyrir verðtryggð bréf lækkaði um 0,5% en vísitalan fyrir óvertryggð bréf lækkaði óverulega eða um 0,07%.