Gengi krónunnar náði í gær sínu hæsta verðgildi síðan í mars á þessu ári. Gengisvísitalan sló um stund í 120,50 og hefur ekki farið svo lágt síðan í lok mars. Í Morgunkornum Greiningar Íslandsbanka kemur fram að krónan hefur frekar verið að sækja í sig veðrið síðan um miðjan síðastliðinn mánuð og hefur á tímabilinu hækkað um 1,6%. Ýmsar ástæður hafa legið að baki þessari hækkun og má þar nefna aukinn mun innlendra og erlendra skammtímavaxta, erlendar lántökur innlendra aðila og fjárfestingar erlendra aðila hér á landi.

Hækkunarhrina krónunnar hefur staðið yfir með hléum frá því í maí en á þeim tíma hefur krónan hækkað um 3,1%. Það virðist skjóta nokkuð skökku við að á sama tíma og ójafnvægi þjóðarbúsins fer vaxandi og forsendur gengislækkunar fyrir lok stóriðjuframkvæmda virðast vera að skýrast frekar þá hækki gengi krónunnar. Þetta þarf þó ekki að merkja að gjaldeyrismarkaðurinn sé ekki framsýnn. Síður en svo. Þetta kann einfaldlega að merkja að aðilar þar telji langt í frá fullvíst að gengislækkun krónunnar umfram framvirka gengið þurfi til að leiðrétta á endanum það vaxandi ytra ójafnvægi þjóðarbúsins sem greina má nú í hagtölum.