Krónan hefur haldið áfram að hækka núna í morgun eftir snarpa hækkun í gær. Hækkunin í morgun nemur ríflega 0,5% en í gær hækkaði hún um 0,6%. Krónan hefur nú á um einni viku hækkað um 2% og hafa viðskiptin á gjaldeyrismarkaðinum verið lífleg. "Ástæður hækkunarinnar hafa ekki síst verið miklar erlendar lántökur. Munur innlendra og erlendra skammtímavaxta er mikill um þessar mundir og af þeim sökum sjá innlendir aðilar sér hag í því að fjármagna sig í erlendum gjaldmiðlum," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Gengisvísitalan fór undir 117 stig í morgun og hefur hún ekki staðið svo lág í ríflega fjögur ár. Mestar hafa breytingarnar orðið gagnvart dollaranum sem hefur verið að veikjast undanfarið gagnvart helstu myntum. Dollarinn fór í 64 krónur í morgun og þarf að fara aftur til ársins 1997 til að finna tíma þar sem hann var jafn ódýr.