Eftir umtalsverða lækkun undanfarnar vikur hefur gengi krónunnar hækkað í morgun um tæplega 0,8%. Í Morgunkorni Íslandsbanka er ástæða þess rakin til frétta um frekari álversframkvæmdir en um helgina barst frétt þess efnis að Norðurál, Reykjanesbær og Hitaveita Suðurnesja hafi undirritað samkomulag um könnun á möguleikum á rekstri allt að 200-250 þúsund tonna álvers í Helguvík. Ef niðurstöður könnunarinnar reynast jákvæðar er reiknað með að framleiðsla hefjist á árunum 2010 til 2015.

Að sögn aðila Norðuráls er framundan mikil undirbúningsvinna sem getur tekið allt að tvö ár. Hér er því verið að ræða álversframkvæmdir sem kæmu til eftir að núverandi framkvæmdum við stækkun Norðuráls og álver Alcoa lýkur. "Um að ræða nokkuð stóra fjárfestingu sem gæti haft þau áhrif að núverandi hagvaxtarskeið myndi teygja anga sína lengra fram í tímann en áður hefur verið reiknað með," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.