Hæpið virðist að sú gengislækkun krónunnar sem orðin er frá áramótum nægi til að útmá þann hluta viðskiptahallans sem ekki er tilkominn vegna stóriðjufjárfestinga, segir Greiningardeild Glitnis.

Metið samband raungengis og viðskiptahalla gefur til kynna að frekari lækkun gengis krónu þurfi til að ná hallanum niður á ásættanlegt stig á skömmum tíma.

Í þjóðhagsspá greiningardeildarinnar sem nær til ársins 2010 er miðað við að gengi krónunnar eigi eftir að lækka nokkuð þegar á spátímabilið líður og verða nærri því sem kalla má jafnvægisgengi, þ.e. því gengi sem stuðlar að sjálfbæru jafnvægi í utanríkisviðskiptum. Telur greiningardeildin að til miðlungi langs tíma sé jafnvægi þetta að finna þegar gengisvísitala krónunnar er í grennd við 130 stig.

Talsverð óvissa er þó fólgin í mati af þessu tagi og ber að taka tölunni með þeim fyrirvara. Óvissan núna er ekki síst til komin vegna þeirra miklu eðlisbreytinga sem átt hafa sér stað á viðskiptahallanum þar sem samsetning gjaldeyristekna hefur breyst til muna og einnig þeirra sérstæðu þátta er marka þróun innflutnings um þessar mundir, segir greiningardeildin.