Gengi íslensku krónunnar hefur lækkað um ríflega 11% undanfarna tíu daga. Enn er þó krónan u.þ.b. 14% sterkari gagnvart helstu gjaldmiðlum en hún var þegar „hin takmarkaða endurfleyting hennar hófst að morgni 4. desember síðastliðins."

Þetta segir í Morgunkorni Greiningar Glitnis.

Þá segir einnig:

„Gengi krónu gaf töluvert eftir í gær. Lækkaði krónan um 5% gagnvart evru. Virðist sem markaðsaðilar hafi túlkað orð Poul Thomsen, sem fer fyrir sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi, um að stutt væri í vaxtalækkun og afléttingu hafta á þann veg að búast mætti við útstreymi gjaldeyris fyrr en síðar. Gjaldeyrismarkaður er mjög grunnur og lítið þarf til að framboð af gjaldeyri hverfi tímabundið. Markaðurinn er því viðkvæmur.

Vera má að þátttakendur á markaði hafi lesið full mikið út úr orðum Thomsen, enda voru þau í stórum dráttum í takti við fram komna aðgerðaráætlun stjórnvalda og IMF um að aflétta gjaldeyrishöftum og lækka vexti um leið og nægilegur stöðugleiki væri kominn á gjaldeyrismarkað. Að mati okkar er lykilatriði hér að höftunum verði ekki aflétt fyrr en stöðugleikinn á gjaldeyrismarkaði hefur verið tryggður. Ein forsenda fyrir slíku og þar með afléttingu haftanna er að sett sé fram trúverðug framtíðarsýn á fyrirkomulag peninga- og gjaldmiðilsmála Íslands.“