Gengisvísitalan fór yfir 116 stig nú í morgun en það hefur hún ekki gert síðan í byrjun desember á síðastliðnu ári. Krónan hefur lækkað um ríflega 1% núna í morgun eftir birtingu vísitölu neysluverðs. Krónan hefur lækkað nokkuð skarpt síðustu vikur en frá því að gengi krónunnar stóð hæst á árinu, í lok mars, hefur gengi hennar lækkað um 8,6%. Dollarinn hefur á þessum tíma hækkað úr 58,9 kr. í 65,9 kr, evran úr 77,5 kr. í 84,1 kr. og pundið úr 111,7 kr. í 123,1 kr.

Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að baki þessari snörpu gengislækkun krónunnar liggja breyttar væntingar um aðhaldsstig peningamála á næstunni. Mat á því að krónan hafi yfirskotið í mars, ásamt fréttum af vaxandi viðskiptahalla og vissu um að krónan muni lækka talsvert áður en yfirstandandi tímabili stóriðjuframkvæmda lýkur, kom þessari þróun af stað.

Gengisþróunin undanfarið hefur verið í takt við nýjustu gengisspá okkar en hana birtum við í byrjun febrúar á þessu ári. Þar sögðum við að krónan gæti hækkað frekar í bráð og að vísitölugildið 107 gæti vel sést. Hins vegar sögðum við einnig að krónan væri ofmetin og að það gengi sem tryggði ytra og innra jafnvægi þjóðarbúsins væri um 20% yfir því gengi sem þá var (vísitölugildi 110) og leiðrétting því rökrétt skref. Lækkun krónunnar frá því í mars er hluti af þessu skrefi en krónan er nú 5,3% lægri en hún var þegar spá okkar var birt. Að okkar mati er krónan því enn talsvert yfir því gildi sem tryggir jafnvægi þjóðarbúsins og frekari lækkun gengisins því framundan, bæði á þessu ári og því næsta segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.