Gengi krónunnar hefur lækkað um 1,2% frá því í morgun, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Gengi krónunnar hefur nú lækkað um nær 15% á síðustu tveimur mánuðum.

Gengi dalsins er nú komið í ríflega 74 krónur, evrunnar í tæplega 90 krónur og pundsins í ríflega 129 krónur.

?Engin ákveðin tíðindi eru að baki þessari hreyfingu. Mun frekar er hér um að ræða afleiðingu þróunar gengis krónunnar undanfarið og þeirrar umræðu um íslenskt efnahagslíf og stöðu bankanna sem hefur verið grundvöllur þeirrar þróunar," segir greiningardeild Glitnis.

Gengislækkun krónunnar á þessu ári var viðbúin, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Gengisvísitala krónunnar er nú komin á þann stað sem greiningardeildin telur að sé nægjanlegt til að tryggja ytra jafnvægi þjóðarbúsins, það er að viðskiptahallinn færist niður í ásættanlegt stig.

Þó er ekki útilokað að gengi krónunnar muni lækka frekar í bráð. Í raun má telja frekari lækkun líklega og þar með yfirskot á gjaldeyrismarkaði. Eðli slíks ástands er aftur á móti að það er tímabundið.