Gengi krónunnar lækkaði á gífurlegum hraða í morgun eða um 2,8% á innan við klukkustundu í kjölfar neikvæðs álits Merrill Lynch á íslensku bönkunum sem birt var í gær, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Einnig má rekja lækkunina til neikvæðra tíðinda af miklum halla á utanríkisviðskiptum landsmanna.

Lækkunin afhjúpar taugaóstyrkan markað og rík tilhneiging virðist til lækkunar um þessar mundir.

Líklegt er að gengi krónunnar styrkist lítillega eftir að jafnvægi hefur fundist í kjölfar mikillar lækkunar í morgun, segir greiningardeildin.

Afar hæpið er þó að gengislækkunin gangi snögglega til baka.

Greiningardeildin hefur spáð því að gengi krónunnar lækki á síðari hluta ársins og teljum að gengisvísitala krónunnar muni standa í um 120 stigum í byrjun næsta árs.

Skýrslan kemur bönkunum illa og vera kann að hún torveldi fjármögnun þeirra á alþjóðlegum mörkuðum enda er í henni gefið í skyn að vandamál séu framundan, segir greiningardeildin.

Gengi krónunnar lækkar af þessum sökum og hið sama má segja um verð hlutabréfa.

Viðskiptahallinn hér á landi reyndist talsvert meiri í fyrra en almennt hafði verið reiknað með.

Seðlabankinn birti greiðslujöfnuð þjóðarbúsins eftir lokun markaða í gær og í ljós kom að hallinn í fyrra nam hart nær 17% af landsframleiðslu, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Það er methalli bæði í sögulegu og alþjóðlegu ljósi. Þessi þróun vekur mikla athygli erlendis og gefur ekki traustvekjandi mynd af innlendu efnahagslífi.