Gengi krónunnar nú er því afar nálægt lágmarki sínu á árinu en lægst fór gengi krónunnar gagnvart evrunni á árinu 27. ágúst síðastliðinn í 184,9 krónur en þá beitti Seðlabankinn kröftugum inngripum og snéri veikingu krónunnar í styrkingu.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en gengi krónunnar hefur lækkað í morgun um 0,2% eftir að hafa lækkað í gær um 0,7%. Evran kostar nú 184,2 krónur og dollarinn 124,7 krónur.

Greining Íslandsbanka segir að erfitt sé að greina nákvæmar ástæður lækkunarinnar þar sem þær eru háðar afar fáum viðskiptum. Þó megi benda á ýmislegt í efnahagslegu umhverfi gjaldeyrismarkaðarins sem gæti verið að hvetja til lækkunar krónunnar þessa daganna og þar megi meðal annars nefna drátt á lyktum Icesave samkomulagsins, erfiðleika í stjórnarsamkomulaginu, óvissu á vinnumarkaði og minni afgang af vöru- og þjónustujöfnuði í september en mánuðina á undan.

Þá kemur fram að gengi krónunnar á aflandsmarkaði hefur verið að gefa nokkuð eftir síðustu daga eftir að hafa styrkst nokkuð seinnihluta september. Fór evran úr því að vera á 216 krónur niður í að kosta 190 krónur á tímabilinu frá 23. september fram til 30. september síðastliðinn. Síðustu viðskipti áttu sér hins vegar stað með evruna á 200 krónum á þeim markaði og hefur krónan því lækkað nokkuð aftur.

Sjá nánar í Morgunkorni.