Litlar framfarir hafa orðið frá því að áætlun um afnám gjaldeyrishafta var kynnt fyrir rúmu ári síðan. Staða gjaldeyrisforðans að teknu tilliti til skuldsetningar hans er svipuð, krónan hefur veikst um 5% og krónuvandinn hefur aukist þar samhliða auknum endurheimtum föllnu bankanna. Þetta kom fram í máli Davíðs Stefánssonar, hagfræðings í greiningardeild Arion banka, á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í dag. Þar voru gjaldeyrishöftin rædd, og hvort þau séu komin til að vera.

Davíð sagði gengi krónunnar rangt skráð. Það ætti að vera veikara. Máli sínu til stuðnings benti hann á viðskiptajöfnuðinn, sem sé aðeins lítillega jákvæður, þrátt fyrir aukinn útflutningsverðmæti eftir hrun.

Davíð sagði það niðurstöðu sína að höftin séu komin til að vera, að minnsta kosti ef haldið verður áfram á sömu braut. Þrjár leiðir séu færar til að losa um þau, en leiðirnar virðist ófærar. Í fyrsta lagi að íslendingar selji erlendar eignir fyrir krónur og þannig verði losað um stöður útlendinga, í öðru lagi að Seðlabankinn gangi á forðann til þess að losa um erlenda aðila, og í þriðja lagi að erlendir aðilar vilji eiga krónur sínar áfram, sem þeir sitja með fastir hér á landi.

Hins vegar virðist ekki vera mikill vilji meðal Íslendinga, sem eiga um 800 til 850 milljarða króna erlendis, til að selja erlendar eignir. Hann sagði að miðað við þau gjaldeyrisútboð sem Seðlabankinn hafi staðið fyrir virðist áhugi innlendra aðila, helst lífeyrissjóða, takmarkaður. Aukinn áhugi í síðasta útboði bankans skýrist meðal annars af því að stjórnvöld beittu „skattlagningarvaldi“ til þess að knýja lífeyrissjóðina til þátttöku.

Þá sagði hann gjaldeyrisforðann aðeins tækan til þess að jafna út skammtímasveiflur, þar sem hann sé að öllu leyti skuldsettur.

Um hvort erlendir aðilar vilji binda sig hér sagði Davíð það ekki útilokað að einhverjir þeirra vilji vera hérlendis áfram. Hins vegar sé um að ræða stórar fjárhæðir og farvegur til fjárfestinga takmarkaður. Því sé ekki hægt að líta svo á að lausnin á afléttingu hafta felist í að aflandskrónueigendur bindi sig hér.